Fortsätt till huvudinnehåll

Inlägg

Visar inlägg från april, 2017

Bókablogg eða ekki ...

Loksins er vor í Dalslandi, hitinn í tveggja stafa tölu og sól. Stóru trén, sem beðið hafa norpandi eftir tækifæri til að fletta út á sér laufunum, grænka með hraði. Þetta er síðasti dagurinn minn í Åmål, a.m.k. í þessari törn, ég hafði aldrei komið hingað í byrjun þessa mánaðar og veit ekki hvort eða hvenær ég kem aftur. Ég hafði hugsað mér að skrifa bókablogg áður en ég færi héðan, um bók sem ég fann hérna frammi í hillu, en ég næ því ekki vegna þess að ég þarf að gera annað í dag og mig langar líka að vera dálítið úti í góða veðrinu. Bókin heitir Bland vulkaner och varma källor - Isländska strövtåg, hún kom út 1924 og er eftir Harry Blomberg. Höfundur segir í bókinni frá Íslandsferð sinni snemma á 3. áratug síðustu aldar og ég held að hann hafi verið dálítið naskur húmoristi. Harry Blomberg ræðir meðal annars þá þversögn á nokkrum síðum að á Íslandi skófli menn síld upp úr sjónum sem seld sé dýru verði til útlanda en að þeir sem slíti sér út við veiðar og fiskverkun séu bláfátæki

Næstsíðasti dagurinn í Åmål

Líður að lokum dvalarinnar í menningarhúsinu bænum við Vänern. Búið að panta lestarferð suður á bóginn á fimmtudag og ég verð á Íslandi í næstu viku. Þar bíða beð sem þarf að róta í og safnhaugur sem þarf að snúa á hvolf. Veðrið hefur verið frekar ömurlegt allan mánuðinn hér í Svíþjóð; kalt, rigning, haglél, slydda og rok. Ekki hefur strandlíf og drykkja á sólpöllum tafið mig frá vinnu, enda hefur mér orðið mikið úr verki, ég hef bæði lesið og skrifað og líka andað djúpt og hugsað. Erla er ekki neitt sérlega iðin við bloggið, en ég bind vonir við að senn skrifi hún eitthvað. Ef þið vitið um íslensk blogg sem ég ætti að lesa þá má láta mig vita. Nokkur önnur blogg  sem ég les: Ráðlagður jazzkammtur Kaktusinn Bragi Ólafsson Fjallabaksleiðin

Enn í Åmål

Enn er ég í Åmål en skrapp reyndar til Karlstad um helgina til að fá hvíld frá fásinninu. Þangað er klukkutíma róleg lestarferð. Mér finnst hægar lestir betri en hraðar. Í Karlstad sá ég safnið með myndum eftir Lars Lerin , gamla steinbrú og fleira skemmtilegt. Í Víðsjá í dag fjallaði Steinunn Inga Óttarsdóttir mjög vel um Velkomin til Ameríku , eftir Lindu Boström Knausgård. Bókin, sem ég þýddi í vetur, er nýkomin út og ef einhvern langar að hlusta þá er hann hér þátturinn og umfjöllunin hefst á 36. mínútu .   Ljóðalesturinn í kúltúrhúsinu hjá okkur Louise Halvardsson gekk, held ég, ljómandi vel og hér er viðtal við mig sem birtist í héraðsfréttablaðinu . Það er pláss fyrir fólk í litlum bæ eins og Åmål. Úr gönguferð í kvöld. Lestargöng sem hafa ekki verið notuð í áratugi.

Blaðamenn og draumur

Það telst líklega til stórtíðinda að skrifandi Íslendingur dvelji í Åmål. Ég er búin að lofa að hitta tvo blaðamenn í dag. Annan frá héraðsfréttablaði og hinn frá bókmenntamiðli. Ég óttast að ég valdi fjölmiðlamönnunum vonbrigðum verandi jafn óspes og ég er. Ég ætti kannski að temja mér að ganga með sérkennileg höfuðföt, klæða mig í óvenjuleg föt og reykja jafnvel pípu. Það hlyti að gleðja fólk sem gerir sér ferð til að ræða við mig ef ég gengi með hatt eins og Selma Lagerlöf. Í nótt dreymdi mig að ég væri stödd á tónleikum með Ljótu hálfvitunum í Hafnarfjarðarbíói. Uppstillingin á sviðinu var eins og um sinfóníutónleika væri að ræða og þarna voru margar fiðlur, en svo var þarna líka banjó með tveimur plaststrengjum og ég átti að vera tilbúin að spila á það ef með þyrfti, ég varð að sitja fremst til að geta stokkið fyrirvaralaust upp á svið. Bragi Valdimar Skúlason var forsprakki Ljótu hálfvitanna en einnig átti leynigestur að koma fram. Þegar Bragi kynnti fyrsta lagið sem MASH-lagið

Djamm og djobb í Åmål og Gautaborg

Nú er ég aftur sest við skrifborðið í bókmenntahúsinu í Åmål, sama húsi og rithöfundurinn, fréttaritarinn og hænsnabóndinn Ida Bäckmann bjó í sem barn. Ég gleymdi reyndar að minnast á það í bókablogginu um Idu að ég væri með vinnuaðstöðu á æskuheimili hennar. Páskunum var eytt í hinni indælu Gautaborg þar sem við sáum meðal annars fallega sýningu á verkum Tove Jansson á listasafni. Mig langar svolítið að þýða Sommarboken eftir Tove Jansson, kannski finn ég einhvern flöt á því fljótlega. Mér finnst að hún ætti að vera til á íslensku. Öll söluvaran með múmínálfamyndum er svolítið að kæfa hin raunverulegu verk Tove. Í Gautaborg sá ég líka rottu skjótast inn í McDonalds-kassa í Brunnsparken og sitthvað fleira áhugavert. Lestarferðin til Åmål á páskadag tók hins vegar fimm tíma í stað eins og hálfs vegna járnbrautarslyss, og var reyndar um tíma rútuferð. Á öðrum degi páska var ekki mikið stuð í Åmål en það var samt hægt að fá sér bakaða kartöflu með skagenhræru og hlusta á dúndrandi t

Ævintýrasirkusinn

Auðvitað er ég blinduð af eigin fordómum. Á meðan ég gekk um Åmål síðdegis í dag, eftir langan vinnudag við skrifborðið, hugsaði ég með mér að hér í þessum rólega bæ gerist örugglega aldrei nein ævintýri. Mér fannst þessi staður hljóta að vera merktur einhverjum ægilega tragískum hversdagsleika. En það var auðvitað eins og við manninn mælt; ég gekk inn í bók eftir Enid Blyton. Þegar ég kom rétt út fyrir miðbæinn, niður að vatninu, kom í ljós að Cirkus Brazil Jack er mættur í þorpið. Bæjarbúar þustu að og biðröð hafði myndast við miðasöluvagninn. Auðvitað gat forvitna konan ekki stillt sig um að læðast um svæðið og smella af nokkrum myndum. Ég batt að sjálfsögðu vonir við að sjá skeggjuðu konuna, fíl sem gengur á tveimur fótum, apa sem skilur mannamál og léttfulla spákonu með stóra eyrnalokka, skuplu og kristalskúlu, en þau voru örugglega öll inni í vögnunum að leggja sig. Sömuleiðis konan sem getur brotið sig saman og troðið sér ofan í skókassa og síamstvíburarnir. Hins vegar sá ég þr

Pizza-salat, strönd, bækur og hús

Nú er ég búin að taka Åmål betur út en um daginn, það tekur ekki langan tíma að skoða miðbæinn hérna. Ég fór á pítsustað í gærkvöldi og fékk mér til gleði hinn sænska rétt pizzasalat á undan pítsunni. Svo fór ég í göngutúr niður á litla strönd sem er í sjö mínútna göngufjarlægð. Þar var engin manneskja, bara beyglað hjól. Ég les ekki eins mikið og ég gerði fyrir einhverjum árum. Einu sinni át ég bækur en nú narta ég frekar í þær. En ég er búin að vera að lesa ýmislegt þessa viku sem ég hef verið í Svíþjóð, bæði gott og minna gott, áhugavert og minna áhugavert. Í dag skrifaði ég blogg um eina af bókunum, bókin sjálf er ekki endilega neitt frábær en ég mun sennilega ekki gleyma konunni sem hún fjallar um í bráð. Hér er bloggið . Það eru mörg falleg hús í Åmål. Líka margar kirkjur miðað við hvað bærinn er lítill. Ég hef rekist á Baptistakirkju, missionskirkju (þar eru AA-fundir auglýstir í auglýsingakassa fyrir utan) Hjálpræðisher, venjulega sænska kirkju með tilheyrandi kirkju

Lognið í Åmål

Wallenbergare frá Findus, hádegisverður dagsins Hér í þessum sænska smábæ, íbúar Åmål eru um 10000, er mjög rólegt. Fáar verslanir, engin alþjóðleg skyndibita- eða kaffihúsakeðja og búðir og kaffihús sýnist mér lokuð frá því upp úr hádegi á laugardegi og fram á mánudag. Samt er hér lítil göngugata með bókabúð, nokkrum tuskubúðum, apóteki og einhverjum smáfyrirtækjum, lítið torg með blómasölu og pylsusjoppu og þrjár flóamarkaðsbúðir. Já og nokkur mjög heimilisleg kaffihús sem selja rækjubrauð og kanilsnúða. Það þykir alls ekki sjálfsagt meðal Svía að flýta sér eða veita hraða þjónustu. Ég hef stundum á tilfinningunni að Svíar, sem tala mikið um stress og eru margir veikir af stressi, séu kannski svolítið stressaðir vegna hægagangs. Það getur tekið á taugarnar þegar hlutirnir ganga mjög hægt. Mér datt í hug að fá mér gleraugu í Åmål en það tekur þó nokkrar vikur að bíða eftir tíma hjá optiker einu gleraugnabúðarinnar í bænum og síðan tvær vikur minnst að bíða eftir gleraugum. Og

Menningarkarlar og menningarkonur

Druslubókabloggið lifnar reglulega við. Guðrún Lára var að skrifa skemmtilegt blogg um bók sem ég las fyrir einhverju síðan og fannst ansi slæm. Það segir samt mögulega eitthvað um mig að áður en ég las hana var ég viss um að hún væri vond en ég las hana samt. Á meðan færslan um bók Martinu Haag birtist á netinu var ég á bókmenntakvöldi á kaffihúsi í Åmål. Þar var vel mætt, svona 60-70 manns. Líklega var 80% gesta eldri konur eða gamlar konur, svo voru nokkrar miðaldra eða jafnvel ungar konur og nokkrir eldri karlar. Ég held að það hafi kostað um það bil þúsund krónur íslenskar inn, fólk telur ekki eftir sér að borga sig inn á skáldauppákomur í útlöndum, spurning hvort þúsundkall í rúllugjald yrði gúdderað á kaffihúsinu Norðurbakkanum í Hafnarfirði. Fyrst las karlmaður sem heitir Rolf Andtbacka eigin ljóð. Þau heilluðu mig ekki neitt sérstaklega en voru samt alveg í lagi, mér finnst annars ljóðalestur oft leiðinlegur. Síðan kom Ebba Witt-Brattström, sem ég fullyrði að

Í dreifbýli Svíþjóðar

Ég er stödd í Åmål í Dalslandi og búin að koma mér fyrir á gistiheimili í húsi frá 19. öld og á vinnustofu í húsi frá 18. öld. Hér er svo rólegt að mér er um og ó. Í gærkvöldi fékk ég mér göngutúr og komst að því að helstu viðskiptatækifærin í bænum liggja í hárgreiðslu og snyrtingu. Ég sá mun fleiri hárgreiðslu- og snyrtistofur en veitingastaði og verslanir, það er meira að segja hárgreiðslu- og snyrtistofa á gistiheimilinu mínu. Åmål er við Vänern (sem kallast stundum Vænir á íslensku) stærsta stöðuvatn Evrópusambandsins og þriðja stærsta vatn í Evrópu, svo mikið veit ég, en annars er viska mín um staðinn enn sem komið er ekki mikil og aðallega fengin héðan . Ég held að ég muni taka ástfóstri við þennan bæ áður en dvölinni lýkur. Og í kvöld er bókmenntakvöld í Åmål með Ebbu Witt-Brattström og öðrum höfundi sem ég kann ekki að nefna. Hér er mynd af lestarstöðinni.

Sapere aude

Ég sit í lest. Lestin er stopp, hún stöðvaðist harkalega á teinunum fyrir nokkrum mínútum. Á aðra hönd er urð og á hina er skógur. Við hliðina á mér situr viðkunnanlegur karl sem lítur út fyrir að vera embættismaður. Jakkafötin, skyrtan, gleraugun, hárgreiðslan, úrið og skórnir benda til þess. Ég er búin að fletta blaði sem ég fann í sætisvasanum. Þar er enn ein greinin um mikilvægi fyrirmynda. Förebilder eins og þær heita á sænsku. Hvenær hófst hin suðandi umræða um mikilvægi fyrirmynda? Einu sinni las ég eitthvað eftir Foucault, ég man ekki hvert umfjöllunarefnið var nema að hann notaði hugtakið sapere aude . Það rifjaðist upp þegar ég fór að lesa um fyrirmyndir. Ég gúgglaði og komst að því að Fúkki hefur stolið þessu frá Immanúel Kant sem stal þessu frá rómversku skáldi, sniðugir karlar eru alltaf að stela einhverju sniðugu. En já, ég lærði einu sinni smávegis í latínu (mér fannst það frekar skemmtilegt en ég var ekki sérlega góður námsmaður) og þetta sapere aude sat í mér. Ég

Uppvaskarinn

Ég hélt að ég væri alein á litla gistiheimilinu en það er misskilningur. Ég hef ekki heyrt neitt sem bendir til mannaferða en í gær setti ég gaffal í vaskinn í eldhúsinu (þann sem ég notaði til að borða kvöldmat upp úr plastboxi) og einhver var búinn að þvo hann þegar ég fór á fætur. Síðdegis í dag setti ég óhreint glas í vaskinn og í kvöld var búið að vaska það upp. Ég mun sennilega ekki hitta þann sem er í uppvaskinu því ég fer í fyrramálið. Ég þarf að taka af rúminu og ryksuga áður en ég fer, þannig virkar þetta gistiheimili. Í morgun vaknaði ég við svartþrastarsöng, eins og í Lyon og Reykjavík. Sem betur fer syngja rotturnar ekki. Ég sé ummerki um þær hérna í garðinum. Það er allt morandi af rottum í miðborg Stokkhólms. Þegar svartþrestirnir vöktu mig tók ég þessa mynd út um gluggann.

Drottninggatan

Ég er stödd á gistiheimili í Stokkhólmi. Í gærkvöldi át ég salat upp úr plastboxi í kvöldmat og hámhorfði svo á Skam. Mér finnst þetta skemmtilegir þættir en ég og vinir mínir vorum nú ekki alveg jafn þroskuð við upphaf menntaskólanáms eins og norsku ungmennin. Þau eru líka sennilega eldri en þau eiga að vera, ég meina sko leikararnir. Þannig virkar kannski leiklistarbransinn, fyrst leikur fólk niður fyrir sig og síðan upp fyrir sig og svo er það rekið. Hádegismaturinn var bökuð kartafla með skagenröra. Í kvöld ætla ég að hitta þýðanda og forleggjara og drekka með henni bjór. Á morgun held ég ferðinni áfram, þá er sex klukkustunda lestarferð á dagskrá.

Áfram veginn

Kann ég ennþá að blogga? Erla er byrjuð aftur og mér finnst það svo skemmtilegt að ég ákvað að taka líka upp þráðinn. Mér finnst þessi bloggsíða reyndar ekki sérlega fallega útlítandi, kannski föndra ég eitthvað í henni við tækifæri og fegra hana. Nema ég láti það vera og verði mér úti um alvöru heimasíðu (svoleiðis halda margir rithöfundar úti) og hafi bloggmöguleika á henni, en það er annað mál. Ástæða þess að ég nota þessa síðu, en ekki gamla bloggið mitt sem ég skrifaði á um árabil, er sú að þessi var aðallega ferðablogg. Síðast þegar ég skrifaði á þessa síðu var ég stödd í Lyon í Frakklandi þar sem ég skrifaði Randalín og Mundi í Leynilundi . Sú bók er auðvitað löngu komin út og síðan hef ég skrifað þó nokkrar bækur á ýmsum stöðum. Á morgun legg ég af stað í mánaðarlangt ferðalag og ætlunin er að vinna í tveimur bókum í ferðinni. Önnur er framhald af þessari hérna en hin er ekki framhald af neinu. Ég býst við að bærinn sem ég ætla að dvelja í næstu vikurnar líkist ekki vitund Lyo